Vilja afnema lög um gengislán

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram lagafrumvarp sem felur í sér að tilgreind ákvæði laga um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 falli brott. Umrædd breytingalög voru samþykkt 22. desember 2010 í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem lýstu gengistryggingarákvæði í tilgreindum bílalánasamningum ógilt.

Við þinglega meðferð málsins var lýst efasemdum um hvort efni breytingalaganna samræmdist umræddum dómsniðurstöðum hvað varðar þær lánategundir sem þeim var ætlað að taka til og þeirra aðferða við endurútreikning sem þar eru lagðar til grundvallar. Auk þess töldu margir þörf á að fá úr því skorið fyrir þar til bærum dómstóli hvort niðurstöður Hæstaréttar samræmdust neytendalöggjöfinni og alþjóðlegum skuldbindingum sem leiða mætti af evrópskum neytendarétti og mannréttindaákvæðum.  Umboðsmaður skuldara er meðal þeirra sem vakið hefur máls á framangreindri réttaróvissu og er frumvarpið lagt fram í því ljósi. Þá hefur Hæstiréttur ekki skorið úr um hvort hægt sé að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann á grundvelli endurútreiknings eða að heimilt sé að bæta endurútreiknuðum viðbótarvöxtum við höfuðstól lánanna.

Síðustu vikur hafa lántakendum borist endurútreikningar sem fjármálafyrirtæki telja að lög nr. 151/2010 nái til. Ljóst er að staða margra neytenda hefur breyst til hins verra að endurútreikningi loknum og sú staða sem við blasir er í engu samhengi við þær skuldbindingar sem neytendur töldu sig upphaflega hafa tekist á hendur. Þannig jókst mánaðarleg greiðslubyrði láns upp á 29.900.000 kr. sem tekið var 1. júní 2006 um 128%, úr 128.031 kr. á mánuði í 301.121 kr. á mánuði. Slíkt getur ekki undir neinum kringumstæðum talist ásættanlegt. Eins má benda á að umrædd mánaðarleg afborgun að endurútreikningi loknum er mun hærri en afborganir voru af láninu stökkbreyttu fyrir endurútreikning en þá var lántakanda gert að greiða 245.077 kr. á mánuði af láninu. Þess ber að geta að lántakandinn hefur ekki nýtt sér nein skuldaúrræði sem lántakendum hafa boðist í kjölfar hrunsins haustið 2008 og hann alltaf greitt þær greiðslur sem fjármálafyrirtækið hefur krafið hann um vegna þessa tiltekna láns. Endurútreiknaður höfuðstóll er 45,2% hærri en sá upphaflegi og stendur nú í 43.416.697.

Annað dæmi er um lán frá því í nóvember 2004 sem upphaflega var 26.000.000 kr. en endurútreiknaðir áfallnir vextir eru 30.000.000 kr. Höfuðstóll lánsins er því mun hærri eftir endurútreikning en sú fjárhæð sem tekin var upphaflega að láni þótt tæpar 15.000.000 kr. hafi verið greiddar af láninu og vextir af þeirri upphæð komi einnig til frádráttar. Lánið stendur í um 35.000.000 kr. eftir endurútreikning. Endurútreiknaður höfuðstóll er 35% hærri en upphaflegur höfuðstóll.

Þriðja dæmið er 26.000.000 kr. lán sem tekið var í desember 2007. Upphafleg greiðsluáætlun gerði ráð fyrir 151.396 kr. mánaðarlegri greiðslubyrði. Að endurútreikningi loknum hefur höfuðstóllinn hækkað í 31.820.125 kr. og greiðslubyrðin hækkað í 212.066 kr. á mánuði. Höfuðstólshækkunin er 22,4% en greiðslubyrðin hækkar um 40%. 

Þingmenn Hreyfingarinnar telja að með hliðsjón af framangreindum dæmum sé ljóst að markmiðunum með setningu laga nr. 151/2010 verði ekki náð enda liggi fyrir að sambærileg mál fái hvorki sambærilega niðurstöðu né að á þeim sé tekið á samhæfðan hátt sem var vilji löggjafans líkt og fram kemur í lögskýringargögnum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 151/2010.

15. apríl 2011
Margrét Tryggvadóttir
Birgitta
Jónsdóttir
Þór Saari

Slóð á frumvarpið á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/139/s/1240.html

Ofangreind fréttatilkynning er tekin af vef Hreyfingarinnar: http://www.hreyfingin.is/frettir/175-vilja-afnema-loeg-um-gengislan.html


mbl.is Vilja lög felld úr gildi strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er með þvílíkum ólíkindum hvernig stjórnvöld hafa misst þetta mál út í tóma vitleysu. Auðvitað á að afnema þessi lög og bíða eftir niðurstöðu úr dómsmálum.  En það er ekki eins og það hafi vantað alvarlegar athugasemdir við frumvarpið áður en það var lagt fram.

Það er eitt að hafa byrlað landsmönnum eitur með glórulausri "endurreisn" bankakerfisins, sem í sjálfu sér er nóg slæmt, en fyrst valin var sú leið að aðstoða engan, af hverju í andskotanum var þá ekki gengið almennilega frá þessum málum með einhvers konar þaki á afleiðingarnar?

Það hefði mátt gera með því t.d., að ríkið semdi um það við kröfuhafa að yfirveðsettir húsnæðiseigendur gætu a.m.k. skilað inn lyklum, en þar fyrir utan þá hefði mátt stofna sjóð til þess að standa undir málarekstri til þess að útkljá í forgangi þau álitamál sem taka þyrfti fyrir hjá dómsstólum. Þeim málarekstri hefði verið lokið í dag.

En í staðinn fyrir að lágmarka með einhverjum hætti neikvæðar afleiðingar af þessum farsa fyrir lántakendur, þá hafa stjórnvöld gert fátt annað en að koma fólki í verri og verri vandræði. Enda er ekki sjáanlegt nokkurt lát á aukningu í alvarlegum vanskilum og við sitjum uppi með algerlega óleyst og vaxandi skuldavandamál þremur árum eftir hrun.

Seiken (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 14:43

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Það er ekki séns að Magnús Orri, Árni Páll ofl málsvarar bankana láti þetta frumvarp komast i gegn.

Sigurður Sigurðsson, 3.6.2011 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband