Að fara hlæjandi alla leið í bankann

  „Ég held að í þessu skelfileg hruni sem þjóðin varð fyrir þá sé aldrei hægt að tala um neinn jöfnuð eða réttlæti ég held bara að við stöndum frammi fyrir því."
- Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður jafnaðarmannaflokks Íslands, 3. desember 2010 um aðgerðir stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna

Þegar einhver er sagður fara hlæjandi alla leið í bankann felur slíkt tungutak vanalega í sér þá merkingu að viðkomandi hafi gert einhverskonar viðskiptalegan gjörning sem feli í sér mikinn ábóta fyrir þann sem um ræðir.  Ábótinn er þá á kostnað gagnaðila í umræddum viðskiptum og hláturinn líka.  Ég veit ekki alveg hvort hægt er að grípa til þessara orða þegar bankinn er sá aðili sem fer hlæjandi alla leið í bankann.  Því varla fer bankinn hlæjandi alla leið í sjálfan sig.  Það væri þá einhverskonar súrrealík.  Hver veit?  Kannski er þarna ástæðan fundin fyrir því að fleiri en einn banki er starfræktur, svo þeir geti nú allir skellt upp úr stöku sinnum.

Hverju sem því líður verður mér hugsað til orðatiltækisins þegar skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn bankanna ber á góma.  Það liggur fyrir að vogunarsjóðirnir sem á brunaútsölu eignuðust skuldir gömlu bankanna, eru hreint alls ekki í svo slæmum málum.  Því gömlu bankarnir, þrotabúin, hafa með samningum við fjármálaráðherra eignast tvo af nýju bönkunum, Arion og Íslandsbanka.  Auk þess að tryggja eignarhaldið fólu samningarnir í sér hækkað endurmat á virði skulda.  Þannig var búið svo um hnútana að kröfuhafar fái meira í sinn hlut heldur en áður var gert ráð fyrir.  Þetta eru góðar fréttir fyrir vogunarsjóði en slæmar fyrir lántakendur.  

Ekki er annað hægt en að velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að búa svo um hnútana.  Í skýrslu ráðherra segir orðrétt: 

„Í upprunalegum áætlunum um endurreisn bankanna var gert ráð fyrir að meginverkefni fjármálaráðuneytisins yrði að leggja nýju bönkunum til eigið fé að loknu uppgjöri milli nýrra og gamalla banka.  Eftir því sem tíminn leið frá falli bankanna fór óánægja kröfuhafa gömlu bankanna, ekki síst þeirra erlendu, vaxandi.  Sjónarmið þeirra var að lagt væri upp með áætlun sem væri einhliða, ekki væri gætt sjónarmiða þeirra og því yrðu þeir óhjákvæmilega að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum.  Þrátt fyrir að þetta sjónarmið væri ekki réttmætt var orðið ljóst í ársbyrjun 2009 að gera yrði breytingar á upprunalegum áætlunum um endurreisn bankanna.  Með þetta í huga ákvað ríkisstjórnin í febrúar 2009 að koma á formlegum samningaviðræðum milli nýju bankanna og ríkisins sem eiganda annars vegar og skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna hins vegar." (Feitletrun mín)

Við fyrstu sýn virðist óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að ganga frá málum eins og raun ber vitni.  Sérstaklega í ljósi þess að sjónarmið kröfuhafa bankanna var „óréttmætt" að sögn skýrsluhöfunda.  Hvers vegna skyldi ríkisstjórn sem að eigin sögn „ætlar sér að verða norræn velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs" gefa út „skotleyfi á skuldara" eins og sumir hafa orðað það?

Hvort þetta sé hin hliðin á Icesave aðgöngumiðanum að Evrópusambandinu skal ósagt látið.  Hinu vil ég þó velta upp sem er hvort það geti verið að með því að „koma á formlegum samningaviðræðum milli nýju bankanna og ríkisins sem eiganda annars vegar og skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna hins vegar", eins og það er orðað í skýrslunni, hafi neyðarlögunum í raun verið hnekkt, utan dómstóla. 

Eins og margoft hefur komið fram fólu neyðarlögin meðal annars í sér breytta forgangsröðun krafna í þrotabú gömlu bankanna þar sem innstæður urðu að forgangskröfum.  Og þó svo að það hafi ekkert lagalegt gildi hafa íslensk stjórnvöld ítrekað lýst því yfir að bakábyrgð ríkissjóðs á innstæðum í íslenskum bönkum sé fyrir hendi.  Þetta eru góðar fréttir fyrir innstæðueigendur og vogunarsjóði en slæmar fyrir skattgreiðendur.

Í þessu sambandi ber okkur skylda til að líta til þess ójöfnuðs sem birtist okkur þegar dreifing innstæðna einstaklinga í íslenska bankakerfinu er skoðuð.  Samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra áttu 5% þjóðarinnar meira en helming af öllum bankainnstæðum um áramótin 2009/2010.  2,5%, eða 4.627 manns, áttu 44% af öllum innstæðum og þar af áttu 9 einstaklingar meira en þúsund milljónir.  Á sama tíma áttu 95% þjóðarinnar 15 milljónir eða minna inni á bankabók.

Spurningin sem brennur á mínum vörum er hvers vegna í ósköpunum stjórnvöld eru ekki fyrir lifandi löngu búin að klippa á naflastrenginn milli ríkissjóðs og einkarekinna banka?

Í gegnum tíðina hafa menn deilt um hvort opinber rekstur sé heppilegri en einkarekstur.  Öfgarnir í þeirri umræðu eru flestum kunnir.  Á meðan nýfrjálshyggjumenn vilja einkavinavæða allan fjandann vilja kommúnistar miðstýrt ríkisbákn sem yfir öllu gínir.  Oft hafa menn fallið í þá gryfju að sveigjast of mikið í aðra áttina á kostnað heilbrigðrar skynsemi, réttlætis og mannréttinda.

Ég trúi því að ákveðin starfsemi þurfi að eiga sér stað á vegum hins opinbera.  Til dæmis allur rekstur sem snýst um að tryggja og viðhalda grundvallarmannréttindum.  Ýmsum öðrum rekstri er hins vegar ágætlega fyrir komið hjá einkaaðilum.  Svo sem rekstur pizzastaða.  Einkarekstur verður þó, til að standa undir nafni, að standa á eigin fótum.  Borga sjálfur sínar skuldir.  Það gengur ekki að ríkið sé í ábyrgð fyrir einkarekstur.  Það heitir pilsfaldakapítalsimi eða að einkavæða gróða en ríkisvæða tap.  Var ekki nóg komið af því?

Stundum vara menn við hættunni sem felst í svokölluðu tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem þeir efnameiri geti keypt sér aðgang að betri heilbrigðisþjónustu en hinir efnaminni.  Þetta tvöfalda heilbrigðiskerfi fyrirfinnst á Íslandi.  Tannlækningar eru gott dæmi um það. 

Ég dreg þetta tvöfalda heilbrigðiskerfi inn í umræðuna sem hliðstæðu við þá staðreynd að á Íslandi er starfrækt tvöfalt fjármálakerfi, í það minnsta þangað til einhver bankinn fellur í mjúkan ríkisfaðminn.

Og þó svo að ég viti að hagnaðartölur nýju bankanna séu innblásnar af uppreiknuðum lánasöfnum get ég ekki annað en staldrar við tölurnar.  Frá hruni segjast nýju bankarnir þrír hafa hagnast um 139 milljarða.  Þetta jafngildir rúmlega 5.500 25 milljón króna íbúðum.  Á sama tíma standa um 1.700 íbúðir tómar á höfuðborgarsvæðinu.   Í öðru samhengi má nefna að fjárlögin 2011 eru 514 milljarðar og þar af fara 75 milljarðar í vexti.

Ríkisbankinn sem hefur meðal annars rekið pizzastað síðustu mánuðina, tilkynnti um methagnað í vikunni sem leið.  Á fyrsta ársfjórðungi 2011 hefur bankinn hagnast um 12,7 milljarða.  En þessar fréttir af ofurhagnaði bankans féllu algerlega í skuggann af nýjasta útspili hans gagnvart lántakendum.  Bankinn ætlar nú náðasamlegast að lækka skuldir viðskiptavina sinna um brot af þeirri eignatilfærslu sem átti sér stað við hrunið.  „Viðskiptalega skynsamleg ákvörðun að mati bankans" segir efnahags- og viðskiptaráðherra á meðan aðrir segja „ekki nógu langt gengið en skref í rétta átt".  Hvernig sem á málið er litið verður ekki annað sagt en að tímasetning útspilsins veki sérstaka athygli. 

Viðbrögð annarra lykilmanna í fjármálakerfinu eru líka merkileg.  Forstjóri Arion banka sem er með 2,9 milljónir á mánuði, þegar horft er framhjá 10 milljóna króna eingreiðslu, sem hann fékk við ráðningu, bregst hálf skringilega við þessu.  Talar um að Arion banki hafi hingað til unnið eftir einhverju samráði milli fjármálastofnanna sem hafi gengið vel.  Má skilja þessi orð sem svo að forstjóri Arion banka sé að skamma Landsbankann fyrir að hafa svikið samráðið?  Hann bendir svo á að það séu skattgreiðendur sem á endanum borgi fyrir sirkústrikk Landsbankans í ljósi eignarhaldsins. 

Já, kæri Höskuldur, við skattgreiðendur berum ábyrgð á þessu öllu saman þegar upp er staðið - laununum þínum líka - því varla myndi Arion banki geta starfað nema í skjóli bakábyrgðar ríkissins.  Hvernig væri nú að þú færir og talaðir við eigendur Arion banka um að ganga í það minnsta jafn langt og Landsbankinn hefur nú gert í stað þess að ala á sundrungu meðal almennings og halda áfram að fæla viðskiptavini frá bankanum sem þú stýrir?

Forsætisráðherra segir hins vegar ljóst að Íbúðalánasjóður ráði ekki við að fara út í sambærilegar aðgerðir og Landsbankinn, hann standi það illa.  Þann bolta grípur efnahags- og viðksiptaráðherra á lofti og segir erfitt að sjá rökin fyrir ríkisreknum Íbúðalánasjóði ef hann getur ekki gert jafn vel við sína viðskiptamenn og fyrirtæki á samkeppnismarkaði.  Þessi ummæli skjóta frekari stoðum undir hið opinbera leyndarmál að viðamiklar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs séu í farvatninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Og hvers vegna ætli það sé unnið að því að skjóta niður Íbúðalánasjóð?

Ætli það hafi nokkuð með ESB-aðlögun að gera?

Guðmundur Ásgeirsson, 31.5.2011 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband