Fjármál stjórnmálasamtaka

Nokkuð hefur verið fjallað um fjármál stjórnmálasamtaka að undanförnu.  Nú ber svo við að forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem hefur með endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka að gera.  Lögin sem um ræðir eru nr. 162/2006.  Í 1. gr. laganna segir: „Tilgangur laga þessara er að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið."

Hagsmunir fjölmiðla
Erfitt er að fjalla um stjórnmálasamtök á Íslandi og fjármál þeirra án þess að gefa fjölmiðlum gaum í tilteknu samhengi.  Þetta kemur til dæmis fram í grein Einars Árnasonar, hagfræðings, Lýðræði fjármagnsins, sem birt var í BSRB tíðindum í maí 2009.  Að hluta til byggir greinin á því sem fram kemur í bókinni Delegation and Accountability in Parliamentary Democracies sem Oxford University Press gaf út árið 2004 en Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði kafla um Ísland í þeirri bók.

Í grein Einars segir m.a.  „Ísland er eina Evrópulandið sem heimilar auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðlum án takmarkana. Almenna reglan í Evrópu er sú að auglýsingar flokkanna eru bannaðar eða a.m.k. mjög takmarkaðar, hvort sem er í útvarpi eða sjónvarpi. Þannig er leitast við að koma í veg fyrir fjármálatengsl styrkveitenda og flokka. Um leið er verið að hindra að ljósvakamiðlar verði háðir auglýsingatekjum stjórnmálaafla; að útvarps- og sjónvarpsstöðvar fái hugsanlega miklar tekjur frá sumum flokkum en ekki öðrum, það er þeim sem hafa lítið fjárhagslegt bolmagn. ... Til að auka tjáningarfrelsi og draga úr ofurvaldi peninga í stjórnmálum senda þjóðir Evrópu reglulega út efni frá stjórnmálaflokkum, bæði í sjónvarpi og útvarpi, endurgjaldslaust. Útsendingar eru bæði milli kosninga og með meiri tíðni þegar nær dregur kosningum. Þetta á t.d. við um útsendingar stjórnmálaflokka í Bretlandi, sem birtast á samtengdum rásum bæði ríkis- og einkasjónvarpsstöðva, án endurgjalds (Party Political Broadcast)."

Á grundvelli ofangreinds hefur þeirri tillögu verið beint til nefndarinnar að hún beiti sér fyrir því að gerð verði samantekt á evrópsku regluverki hvað þessi mál varðar og að íslensk lög verði aðlöguð að því fyrirkomulagi sem ákjósanlegast er. 

Draga þarf úr fjárþörf stjórnmálasamtaka
Á fjárlögum ársins 2010 er gert ráð fyrir 393 milljónum í framlög til stjórmálasamtaka að meðtöldum þingflokkum.  Það er 10% niðurskurður frá fyrra ári.  Erfitt er að réttlæta svo há fjárframlög til stjórnmálasamtaka.  Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2010 lögðu þingmenn Hreyfingarinnar til að framlög til stjórnmálaflokka yrðu lækkuð um 60%.  Eins var lagt til að í framtíðinni fái stjórnmálasamtök fé sem nægi til reksturs skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð og til greiðslu launa fyrir framkvæmdastjóra og einn starfsmann að auki. Aukinheldur var lagt til að framlaginu verði framvegis skipt jafnt á milli stjórnmálasamtaka.

Þó að ofangreindar tillögur hafi ekki náð fram að ganga við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2010 er ekki útilokað að nefndin sem hefur með endurskoðun laganna að gera muni taka góðum ábendingum vel því flest hljótum við að hafa áhuga á að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.

Höfundar:
Baldvin Jónsson, varaþingmaður Hreyfingarinnar og Þórður Björn Sigurðsson, fulltrúi Hreyfingarinnar í nefnd um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokkanna


mbl.is Fékk 40 milljónir í styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband