Frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Umræðurnar í þinginu í morgun voru um margt áhugaverðar.  Þær má sjá hér: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20091229T093018&horfa=1 

Rétt í þessu var svohljóðandi fréttatilkynning send út:

Fréttatilkynning frá þingmönnum Hreyfingarinnar 29. desember 2009 

Í dag samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Á grundvelli laganna mun Alþingi kjósa níu þingmenn í nefnd sem fær það hlutverk að taka við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við skýrslunni. Í lögunum felst einnig að skýrslunni verði skilað fyrir febrúar 2010. Í því samhengi ber að hafa í huga lög um ráðherraábyrgð og landsdóm en Alþingi eitt getur tekið ákvörðun um að höfða mál gegn ráðherrum þyki þeir hafa gerst brotlegir í starfi.  

Hreyfingin hefur við meðferð málsins bent á alvarlega galla á því og gert við það skynsamlegar breytingartillögur á öllum stigum, nú síðast við lokaafgreiðslu frumvarpsins á Alþingi. Því miður var öllum tillögum Hreyfingarinnar hafnað.  

Breytingartillögur Hreyfingarinnar fólu meðal annars í sér að í stað þess að níu þingmenn yrðu einir settir í þá stöðu að fjalla um hugsanleg brot félaga sinna og / eða foringja og þeim gert að skila tillögum til Alþingis um viðbrögð, svo sem að landsdómur verði kallaður saman, yrði að auki skipuð ráðgefandi nefnd fimm valinkunnra manna sem nytu trausts þorra almennings. Sú nefnd fengi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snúa að þingmönnum, ráðherrum (núverandi og fyrrverandi), fjölskyldum þeirra og Alþingi sem stofnun. Rágjafanefndin myndi svo skila tillögum sínum til þingmannanefndarinnar. Þingmannanefndinni yrði þar með gert hægara um vik að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Um leið yrði ferlið í heild sinni trúverðugra þar sem þingið fengi nauðsynlegt utanaðkomandi aðald og leiðsögn. Í umræðum á Alþingi í dag hélt Siv Friðleifsdóttir því fram að hlutverk þeirrar nefndar væri það sama og rannsóknarnefndarinnar sjálfrar.  Það er alrangt því rannsóknarnefndin sjálf skilar engum tillögum til Alþingis um viðbrögð við eigin skýrslu, hvort draga beri fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm eða hvort Alþingi sjálft hafi brugðist með þeim hætti að til aðgerða þurfi að grípa.

Þá lagði Hreyfingin til að við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skyldu öll gögn sem aflað hefur verið við vinnslu skýrslunnar færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber eins og frekast er kostur. Síðast en ekki síst gerðu breytingartillögur Hreyfingarinnar ráð fyrir því að þingmannanefndin myndi ljúka störfum fyrir 1. maí 2010.  (Breytingartillögur Hreyfingarinnar við lokaafgreiðslu málsins eru meðfylgjandi).  

Í nýsamþykktum lögum er verksvið nefndarinnar ekki skýrt sem gerir störf hennar óljós  og nefndin þarf heldur ekki að skila neinu af sér fyrr en við lok núverandi löggjafarþings sem stendur til 30. september 2010. Sú ráðstöfun að afmarka ráðherraábyrgðina frá desember 2006 er til bóta þó sú aðferðarfræði sem viðhöfð er við þá ráðstöfun sé hugsanlega ekki fullnægjandi líkt og fyrirvarar allsherjarnefndarfulltrúa eru til merkis um. 

Gögn rannsóknarnefndarinnar sem skýrsla hennar byggir á munu einnig mest öll verða lokuð almenningi þar sem kostnaður við að fá aðgang af þeim ópersónugreinanlegum verður gríðarlega mikill og þjóðskjalavörður hefur raunar lýst því yfir að það sé sennilega ekki hægt að gera þau ópersónugreinanleg.  

Þrátt fyrir að hugmyndum Hreyfingarinnar hafi ekki verið veitt brautargengi af þingmönnum hverra flokkar áttu sæti á Alþingi fyrir haustið 2008 mun Hreyfingin halda áfram að fylgjast náið með málinu og áformar að tilnefna þingmann í umrædda þingmannanefnd og halda áfram að upplýsa um framvindu málsins.  

Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir
og Þór Saari


mbl.is Sérstök þingnefnd verður kosin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband