Opið bréf til þjóðarinnar vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Heiðarlegt uppgjör við hrunið er óhjákvæmilegt ef endurreisn Íslands á að takast vel til.  Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og viðbrögð okkar við henni munu skipta sköpum í því samhengi.  Við skoðun málsins getur verið gagnlegt að vera meðvituð um ákveðna þætti þess.

 

Í desember 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 142 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.  Á grundvelli laganna hefur rannsóknarnefnd Alþingis starfað undanfarið.  Í 14. gr. laganna segir: „Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara um það og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.  Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 eða eftir ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti. ... Um ábyrgð ráðherra fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.  Upplýsingar um þau mál sem greinir í 1. og 2. mgr. skulu birtar í skýrslu nefndarinnar."  Í 15. gr. laganna segir í framhaldi: „Rannsóknarnefndin skal láta Alþingi í té skriflega skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar ásamt ábendingum og tillögum um úrbætur. Skýrslan skal þegar í stað gerð opinber."

 

Af ofangreindu er ljóst að ætlun löggjafans er að almenningur fái aðgang að skýrslunni um leið og hún er birt Alþingi.  Það er skynsamleg ráðstöfun.  Hins vegar má velta fyrir sér þeim hafsjó af gögnum sem rannsóknarskýrslan byggir á og aðgengi almennings og fræðasamfélaginu að þeim upplýsingum.  Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að gera allt til að tryggja að þeir endurtaki sig ekki. Því er mjög mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.

 

Þingmannanefnd, landsdómur og ráðherraábyrgð

Þegar kemur að ráðherraábyrgð er vert að líta á 1. gr. laga nr. 3 frá 1963 um landsdóm.  Þar segir:  „Landsdómur fer með og dæmir mál þau er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra."  Í þessu felst að ráðherrar verða ekki dregnir fyrir landsdóm nema Alþingi ákveði svo.  Það leiðir hugann að því með hvaða hætti Alþingi er ætlað að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að kalla saman landsdóm eða ekki vegna hrunsins.

 

Þann 30. nóvember 2009 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.  Frumvarpið felur í sér ákveðnar breytingar og viðbætur við ofangreind lög.  „Miða þær fyrst og fremst að því að búa í haginn fyrir framlagningu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og skýra hvað gerist í kjölfarið", að því er segir í greinargerð með frumvarpinu.  Í 1. gr. frumvarpsins segir:  „Alþingi kýs níu þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Um þingmannanefndina gilda ákvæði þingskapa um fastanefndir, eftir því sem við á, en nefndin setur sér að öðru leyti verklagsreglur. Hún gefur Alþingi skýrslu um störf sín, sbr. 26. og 31. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur lagt fram tillögur að öðrum þingmálum eftir því sem efni máls krefur og fylgt eftir ábendingum í skýrslunni um úrbætur á reglum með því að vísa þeim til viðkomandi fastanefndar ef ástæða er til."

 

Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar í för með sér að þeir aðilar sem ábyrgð bera í því máli sem hér er til umfjöllunar þurfi ekki að axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þess vegna er sá möguleiki fyrir hendi að störf hennar dragist út í hið óendanlega eða uns ráðherraábyrgð fyrnist. Í 14. gr. laga um ráðherraábyrgð segir: „Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram."  Ljóst er að ábyrgð þingmannanefndarinnar er mikil því hún mun ein koma til með að hafa ákvörðunarvald um hvort og þá hvenær landsdómur verður kallaður saman vegna mála sem Alþingi kann að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.

 

Með hliðsjón af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem höfuðábyrgð bera á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi er hætt við því að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu.  Til að mark verði takandi á störfum nefndarinar er það grundvallaratriði að þingmenn hafi ekki sjálfdæmi um það verklag sem varðar aðra þingmenn og ráðherra í þeirri vinnu sem framundan er. Niðurstöður úr könnun sem MMR birti þann 22. október 2009 styðja þá fullyrðingu, en einungis 18% aðspurðra segjast bera mikið traust til Alþingis.  Verði frumvarpið að lögum óbreytt er líklegt að það muni ekki verða til þess að auka veg og virðingu þingsins meðal landsmanna. Þvert á móti bendir allt til þess að slíkt yrði til þess að breikka gjánna á milli þings og þjóðar.

 

Alþingi þarf aðhald

Til að forða þjóðfélaginu og þinginu sjálfu frá þeirri stöðu að Alþingi veiti sjálfu sér aðhald í málinu hefur sú hugmynd skotið upp kollinum að Alþingi skipi nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóti óumdeilanlegs trausts meðal þorra almennings.  Þessa nefnd mætti auðkenna sem ráðgjafanefnd.  Sú nefnd fái það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra.  Nefndin fjalli einnig um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni.  Í fyrsta lagi skuli ráðgjafanefndin koma með tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar.  Í annan stað skuli hún kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs.  Í þriðja lagi skuli nefndin móta tillögur að breytingum á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hér á landi haustið 2008, endurtaki sig.  Þingmannanefndin gæti þá stuðist við tillögur ráðgjafanefndarinnar um viðbrögð Alþingis varðandi umrædda þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

 

Aðkoma Hreyfingarinnar

Þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin eru þau sjónarmið sem Hreyfingin hefur haldið á lofti við meðferð málsins á Alþingi.  Einnig lagði Hreyfingin til að þingmannanefndin yrði skipuð sex þingmönnum í stað níu og það skilyrði sett að enginn nefndarmanna hafi átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 eða hafi óumdeilanlega nokkur tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins. 

 

Hugmyndum Hreyfingarinnar hefur aftur á móti ekki verið veitt brautargengi af hálfu fulltrúa þeirra flokka hverra þingmenn og/eða ráðherrar sátu á Alþingi haustið 2008.  Því til staðfestingar var öllum breytingartillögum Hreyfingarinnar hafnað við vinnslu frumvarpsins í forsætisnefnd.

 

Málinu er þó ekki lokið.  Frumvarpinu hefur nú verið vísað til allsherjarnefndar.  Á fundi nefndarinnar þann 8. desember 2009 var ákveðið að senda frumvarpið ekki til umsagnar utan þingsins en fá í staðinn umsagnaraðila sem formaður nefndarinnar valdi.  Fyrir fundinn sem haldinn var þann 10. desember 2009 lá fyrir tillaga frá Hreyfingunni um að fleiri kæmu fyrir  nefndina en formaður hennar lagði til.  Beiðni Hreyfingarinnar um að nefndin myndi óska eftir skriflegum umsögnum um frumvarpið líkt og jafnan tíðkast við nefndastörf hafði þá þegar verið hafnað.  Tillögu Hreyfingarinnar um gesti var hafnað af formanni nefndarinnar á því formsatriði að fulltrúi Hreyfingarinnar væri áheyrnarfulltrúi og því þyrfti samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt).

 

Á listanum voru meðal annarra:  Egill Helgason, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Hörður Torfason, Þorvaldur Gylfason, Gunnar Sigurðsson, og Eva Joly.  Í því samhengi má geta þess að í niðurstöðum könnunar MMR sem birtar voru þann 20. okt. 2009 kemur fram að 67% svarenda segjast bera mikið traust til Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara vegna rannsóknar á refsiverðri háttsemi í tengslum við bankahrunið, á meðan einungis 27% segjast bera mikið traust til rannsóknarnefndar Alþingis. 

 

Þann 18. Desember var málið aftur á dagskrá allsherjarnefndar og lagði Hreyfingin þá fram ítarlegar breytingartillögur við frumvarpið með beiðni um að breytingartillögurnar yrðu teknar fyrir í nefndinni.  Þeirri beiðni var hafnað.  Málið var svo á dagskrá á Alþingis í dag, 19. desember, og gerði Hreyfingin þá formlegar breytingartillögur við frumvarpið sem þingið þarf að taka afstöðu til.  Atkvæðagreiðslu um þær var frestað.

 

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli virðist enginn áhugi meðal annarra flokka á Alþingi að afgreiða málið með öðrum hætti en þeim sem tryggir hagsmuni þeirra afla sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.  Eru alþingismenn færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára? Eða er nauðsynlegt að hlutlausir utanaðkomandi aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða sem fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar?


mbl.is Fjölluðu um rannsóknarskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Á ekki að fela glæpinn í 80 ár?

Óskar Arnórsson, 21.12.2009 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband