Er stórslys í uppsiglingu?

Mér barst þessi tölvupóstur frá Gunnari Tómassyni og ákvað að birta hann.
*** 
Ágæti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Í viðhengi er samantekt um ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu varðandi gengistryggingu höfuðstóls lána í íslenzkum krónum.
Það er ótvírætt að slík gengistrygging brýtur gegn 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laganna, og varðar refsingu skv. 17. gr.
Skaði lántakenda af þessu broti lánastofnana veltur á hundruðum milljarða kr.
Frá þjóðhagslegu jafnt sem réttlætissjónarmiði ber því brýna nauðsyn til að fullt tillit sé tekið til skaðabótaskyldu viðkomandi lánastofnana áður en gengið er frá uppgjöri við erlenda og innlenda kröfuhafa gömlu bankanna.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur
Viðhengið:
 

Gunnar Tómasson

3. September 2009

 

Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001

 

1.  Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 heimla íslenzkum lánastofnunum að „verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði." (14. gr.)*

 

2.  Í athugasemdum með frumvarpi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 segir svo um ákvæði 13. og 14. gr. frumvarpsins:


    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög"). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið takmarkaðrar hylli.


    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Talið er að samningar með viðmiðun við gengisvístölu á grundvelli ákvæðisins í vaxtalögum séu mjög fáir. Í bráðabirgðaákvæði IV er kveðið á um hvernig farið skuli með innstæður og samninga af þessu tagi sem þegar eru í gildi.

 

3.  Í septemberlok 2008 námu útistandandi gengistryggð útlán innlánsstofnana samtals 2.851.930 milljónum kr.  Þar af 1.439.015 mkr til fyrirtækja, 1.057.842 mkr. til eignarhaldsfélaga og 271.384 mkr. til heimila.

 

4.  Höfuðstóll umræddra lánasamninga er skilgreindur í íslenzkum krónum, og er því gengistrygging/binding þeirra við „dagsgengi erlendra gjaldmiðla" skýrt brot á 13. gr. og 1. mgr. 14 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

5.  Með gengistryggingu höfuðstóls í íslenzkum krónum hafa lánveitendur í raun velt eigin gengisáhættu yfir á viðskiptavini án heimilda í lögum, þótt eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að tengja einstök útlán á eignahlið efnahagsreiknings lánastofnana við einstaka liði á skuldahliðinni, hvort sem eru innlán í íslenzkum krónum eða erlendar lántökur lánveitenda.

 

6.  Viðurlög við brotum á VI. kafla laga nr. 38/2001 (gr. 13-16) eru skilgreind í VII. kafla sem hér segir:

 

VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

 



mbl.is Kröfuhafar gætu eignast Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Ekkert smá mál hér á ferðinni

Jón Aðalsteinn Jónsson, 3.9.2009 kl. 22:28

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Voru þá íslenskir bankar að brjóta lög þegar þeir voru að bjóða þessi körfulán ?

Eru þá enn verið að brjóta lög þegar reiknað er út verðgildi lánanna og hvað maður eigi að borga ?

Það er satt þetta er ekkert smá mál ef reynist rétt.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 3.9.2009 kl. 22:49

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er hárrétt, gengistryggðu lánin eru ólögleg eins og ég hef sjálfur verið að reyna að vekja athygli á í marga mánuði.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.9.2009 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband