Hvers vegna fá nýju bankarnir leiðréttingu á kostnað heimilanna?

IMG_2910 

Ólafur Garðarsson kemst vel að orði.  Leiðrétting var það heillin.  Og hvers vegna leiðrétting?

Vegna þess að lánin hafa hækkað upp úr öllu valdi án þess að almenningur hafi nokkuð til þess unnið.  Aftur á móti hefur sá sem lánaði gert all nokkuð í þá veru.

Sá aðili er nú farinn á ríkisábyrgðan hausinn.

IMG_2908

Það fyrsta sem ríkið gerði var að lofa innstæðueigendum og peningamarkaðssjóðseigendum upp í ermina á sér.  Ágætt mál.  Eða er ekki geymdur eyrir græddur?  Reyndar þurfti að semja neyðarlög sem mismuna kröfuhöfum til að svo gæti farið en hverjum er ekki sama um einhverja útlendinga?  Það er seinni tíma vandamál (170 milljarða fjárlagagat í boði IMF?). 

En bíðum nú við.  Hvernig ætlar ríkið nú að standa við þetta ermaloforð?

Verðtryggðu lánin eru sögð ganga á milli gömlu og nýju bankanna með 20% afslætti á meðan gengistryggðu lánin fara á hálfvirði.  Það er sirka bát sú krafa sem Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á til handa heimilunum.  Þ.e.a.s. að leiðréttingin verði látin ganga áfram alla leið.  Annað væri hreinn og klár þjófnaður.

IMG_2900

Þetta er svo rakið dæmi að allir skilja hversu glórulaus afstaða stjórnvalda er í málinu.  Báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa meira að segja ályktað um málin í þá veru að það beri að grípa til aðgerða á borð við þær sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til.

IMG_2896

Hvers vegna er þetta ekki gert?  Hverra hagsmuna er verið að gæta?


mbl.is Leiðréttingu, ekki ölmusu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bachmann

Hverra hagsmuna, segirðu?

Ef þetta væri glæpasaga og ekki napur veruleiki,

myndi ég segja núna: Follow the money!

En glæpasögur og raunveruleg glæpamál eru ekki það sama og GB og Ingibjörg sömdu ekki ofan af okkur þökin og Björgólfur Thor og frú sigla nú (mínum) skuldum þöndum um höfin blá.

Og í enn einni glæpasögunni stendur, að hann sé nú að nota CCP, sem hann á, til þess að koma restinni af peningunum frá Íslandi. Um hann var slegin skjaldborg og hér á hann 320 þúsund þræla, sem verða látnir borga, hvort sem þeir vilja eða ekki. Hvort sem þeir geta eða ekki. Hvað sem tautar og raular.

Því hér mun ekkert breytast héðan í frá og við munum ekki geta staðið saman um að taka völdin og hrekja óværuna út. Við erum bara fucked.

Þórdís Bachmann, 23.5.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: Jón Lárusson

Það er náttúrulega bara verið að bjarga bönkunum. Ráðamönnum hefur nefnilega verið talin trú um að bankarnir séu lífsnauðsynlegir okkur hinum. Allar aðgerðir rikistjórnarinnar til að "bjarga" heimilunum hafa aðeins verið til þess fallin að bankarnir fái sitt og gott betur en það.

Ef ráðamenn væru virkilega að hugsa um almenning, þá væri búið að skrúfa verðtrygginguna aftur til þess sem hún var í febrúar/mars á síðasta ári og færa afskriftir erlendra lána til almennings.

Þórdís. Afhverju getum við ekki staðið saman og hrakið óværuna út?

Jón Lárusson, 23.5.2009 kl. 23:03

3 identicon

Ef hlutirnir væru svona einfaldir þá væru stjórnvöld örugglega búin að gefa eftir öll lánin, því að það yrði svo dæmalaust vinsælt. Ástæðan fyrir því að húsnæðislánin eru færð niður þegar þau flytjast inn í nýju bankana er vegna þess að metið er að ákveðinn hluti þeirra verður afskrifaður vegna þess að þau fást ekki endurgreidd. Það breytist mjög lítið þótt allar skuldir yrðu færðar niður um 20%. Eins gleymist ávallt í þessu tali um skjaldborgina að yfir helmingur húsnæðislána er hjá Íbúðarlánasjóði og lífeyrissjóðum. Útán lífeyrissjóðanna eru verðtryggð svo hægt verði að greiða lífeyrisþegum út lífeyri í framtíðinni. Ef þau lán verða lækkuð lækka lífeyrisgreiðslur í leiðinni. Og ef útlán Íbúðalánasjóðs eru rýrð, þá minnka möguleikar sjóðsins til að lána í framtíðinni. Að síðustu: er það blekking að bankarnir séu lífsnauðsynlegir "okkur hinum"? Við höfðum enga banka á Íslandi þar til seint á 19. öld og hvaða afleiðingar hafði það fyrir íslenskt atvinnulíf? Bankarnir voru reknir af fádæma heimsku og glæfraskap eftir einkavæðinguna, en það þýðir ekki að við getum komist af án banka.

GH (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 09:00

4 Smámynd: Jón Lárusson

Hlutirnir eru oftast einfaldri en við viljum vera láta. Ég tel einu ástæðu þess að ekki er búið að sinna almenningi í landinu vera þá að það er verið að gæta sérhagsmuna.

Lán hækkuðu um margar milljónir frá febrúar/mars á síðasta ári. Þetta er peningur sem fer beint í vasann á lánveitandanum. Þarna var um að ræða verðbólguskot sem hafði í raun enga útgjaldaaukningu fyrir lánveitandann, sérstaklega ekki í tengslum við lánin. Það að leiðrétta þessa aukningu hefur ekki í för með sér tap fyrir einn eða neinn, bara minni gróða fyrir lánveitandann.

Ég er nú ekki á því að vandi í íslensku atvinnulífi framundir 19. öldina hafi verið vegna þess að við höfðum ekki banka. Það var miklu frekar umhverfið og ofuráhersla á landbúnaðarsamfélag sem orsakaði það. Það var blússandi bisness í gangi á Þjóðveldis og Sturlungaöldinni, en samt höfðum við ekki neinn banka þá. Bankar eru þjónustufyrirtæki ekki drottnunartæki, þó svo að í verki séu þeir það. Um leið og við áttum okkur á því að bankarnir eru ekki þessi lífsnauðsynlega vera, þá fyrst munum fara að njóta ávaxtann af lífinu. Ég er ekki að segja að við eigum aldrei að vera með banka, ég er bara að segja að þetta eru þjónustufyrirtæki eins og hvað annað, ekkert meira spes eða mikilvægari.

Jón Lárusson, 24.5.2009 kl. 09:21

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Samkvæmt efnahagsyfirliti Lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birtir var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok febrúar s.l. 1.591 milljarðar.  Þar af voru 168 milljarðar sjóðfélagalán.

20% af 168 eru 33,6.

33,6 / 1.591 = 0,02

Ef lífeyrissjóðirnir myndu slá 20% af höfuðstól sjóðfélagalána myndu eignir sjóðanna rýrna um 34 milljarða eða 2%.

Þórður Björn Sigurðsson, 24.5.2009 kl. 10:02

6 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Gunnar Tómasson skrifar:

Verðbólga rýrir raunvirði peninga og því finnst mörgum verðtrygging peningaskulda vera réttlætismál. „Ef maður lánar öðrum manni tíu hesta þá vill hann fá tíu hesta til baka, en ekki sjö," er haft eftir Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi á vefnum.

Hann er sagður vera „harður á því að ef maður fær lánaðan kaffipakka þá eigi maður að skila kaffipakka til baka. Það sé ekki hægt að koma með pakkann og segja að kíló af kaffi í gær jafngildi pundi af kaffi í dag. Þetta er laukrétt," bætir sá við sem segir frá.

Þetta er rugl - einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skipsfarmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun október 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti - að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi.

Í markaðshagkerfum eru peningar skuldaviðurkenning sem atvinnurekendur láta í hendur þeim sem leggja fram vinnuafl og önnur aðföng til framleiðslustarfsemi. Stöðugt verðlag tryggir hinum síðarnefndu jafngildi slíkra aðfanga í mynd framleiddrar vöru og þjónustu. Við íslenzkar aðstæður, þar sem nýsköpun peninga utan framleiðslugeirans hefur leitt til umframeftirspurnar á framleiðslumarkaði um árabil, rýrir verðbólgan eignarhluta þeirra sem lagt hafa fram aðföng til framleiðslunnar.

Það er því hagfræði andskotans, sem svo kallast, að segja það vera réttlætanlegt að láta þá sem sætt hafa upptöku eigna á þennan hátt greiða verðtryggingu á útistandandi skuldum - og bera þannig tvöfaldan skaða meðan lánardrottnar þeirra bíða einungis einfaldan skaða.

Höfundur er hagfræðingur.

Þórður Björn Sigurðsson, 24.5.2009 kl. 10:05

7 identicon

Frábær fundur hjá ykkur. Meiriháttar flott hjá ykkur.

Þið standið ykkur vel þó að það vanti að mínu hlustun ráðamanna. Það er nú bara þannig.

Gangi ykkur vel.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband