Kæri Einar Örn - opið bréf til borgarfulltrúa Besta flokksins

Kæri Einar Örn

Ég hef undanfarið verið að bræða með mér þá hugmynd að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taki sig saman og geri atlögu að því að endursemja um opinberar skuldir, en margir hagfræðingar segja að skuldastaða hins opinbera sé ósjálfbær eða á mörkum ósjálfbærni. Eftir því sem ég kemst næst eru ósjálfbærar skuldir þær skuldir sem talið er að skuldarinn hafi ekki burði til að greiða.

Ég gerði smá athugun á skuldum Reykjavíkur um daginn og komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað ársreikninga borgarinnar nokkur ár aftur í tímann að skuldir borgarinnar hafa aukist um 200 milljarða frá 2004 og er Reykjavík með skuldsettustu sveitarfélögum landsins, hlutfallslega. Til samanburðar má geta þess að fjárlög ríkisins 2011 eru 513 milljarðar og þar af fara 75 milljarðar eingöngu í vexti.

Hvað ætli Reykjavík borgi í vexti á ári? Og í hvað væri hægt að nota þá peninga sem kynnu að sparast ef vel til tækist til í endursamningum um skuldir borgarinnar og aðrar opinberar skuldir?

Ég ber mikla virðingu fyrir því að þú viljir eiga einlæga samræðu og talir heiðarlegt stjórn-mál, það vil ég líka gera. En ég vil gera gott betur. Ég vil ekki bara bæta umræðuhefðina heldur vil ég líka að öðruvísi verði stjórnað svo forgangsraða megi í þágu almennings fremur en fjármálakerfisins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég nefni þennan möguleika við fulltrúa Besta flokksins. Ég hef bæði sent Jóni Gnarr skilaboð á Facebook og svo hef ég líka reynt að koma skilaboðum til ykkar í gegnum kunningja minn sem ég veit að starfar með ykkur. Ég hef ekki fengið nein svör frá ykkur ennþá en ég efast ekki um að nóg sé að gera.  Ég vona bara að þið séuð að gera rétt.

Með von um jákvæð viðbrögð,
Þórður Björn Sigurðsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband