Að kaupa sér frest?

Eftirfarandi klausa er úr pistli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem kallast „Af gefnu tilefni frá Steinunni Valdísi" og er að finna á vef Samfylkingarinnar

„Við í Samfylkingunni þurfum að horfast í augu við fortíðina og þær aðferðir sem við höfum haft við uppbyggingu flokksstarfsins, fjármögnun og aðferðir við val á framboðslista. Með það að markmiði höfum við sett á fót sérstaka umbótanefnd. Ekkert á að undanskilja í þeirri vinnu og ræða allar hugmyndir af alvöru. Innan okkar raða hefur sú krafa janfvel heyrst að allir þeir sem sátu á Alþingi fram til ársins 2008 skuli víkja og láta nýju fólki eftir uppbygginguna í kjölfar hrunsins. Er hún réttmæt? Það er ekki óhugsandi að við komumst að þeirri niðurstöðu að svo sé og að slíkar róttækar aðgerðir séu nauðsynlegar til að baráttumál okkar hljóti þann hljómgrunn sem við teljum þeim bera meðal þjóðarinnar. Við skulum ekki útiloka neitt fyrirfram."

Viðbrögðin við þessum pistli hafa verið á ýmsa vegu.  Teitur Atlason skrifar í bloggfærslu á DV sem heitir ,,Steinunn Valdís svarar":

„Reyndar er þessi hugmynd að allir þingmenn Samfylkingarinnar sem sátu á tíma hinnar Vanhæfu ríkisstjórnar segi af sér, ósköp eðlileg og myndi ekkert vekja neina sérstaka eftirtekt í þróuðum lýðræðisríkjum.  Ég er ekkert þakklátur Steinunni að varpa þessu fram.  Ekkert frekar en að þakka strætóbílstjóra fyrir að stoppa á rauðu ljósi eða eitthvað svoleiðis.

Þetta er ganska sjalfklart eins og Sænskurinn segir. 

Þó rennur mig í grun að Steinunn sé í rauninni að segja "Ég ætla ekki að vera blóraböggull í þessu máli" og hótar hinum þaulsetnu og mosavöxnu félögum sínum allskonar þrýstingi ef hún væri látin taka (bónus)pokann sinn út úr alþingi."

Í færslu sem ber titilinn ,,Það sem Steinunn Valdís skilur ekki" og er á Freedomfries á Eyjunni er vitnað í orð Steinunnar í ofangreindum pistli frá henni á vef Samfylkingarinnar:

,,En mér er hins vegar annt um æru mína og samvisku. Afsögn á grundvelli ásakana um að hafa þegið mútufé frá útrásarvíkingum og af þeim sökum látið undir höfuð leggjast að beita mér gegn þeim sem skyldi myndu hvorugu hjálpa. Þær ásakanir eru einfaldlega rangar og breytir þá litlu hvort fáir eða margir hafa þær uppi."

Síðuhöfundur skrifar í kjölfarið:

,,Ég held ekki að málið snúist um að Steinunn hafi þegið „mútur" eða hvort Steinunn hafi birt rétt bókhald um alla styrki sem hún fékk. Málið snýst um að stjórnmálamenn sem fjármögnuðu kosningabaráttu sína og frama í stjórnmálum með styrkjafé frá fjármálastofnunum og athafnamönnum sem gerðu landið gjaldþrota þurfa að axla ábyrgð - sýna kjósendum í verki að þeir brugðust, að löngun þeirra til að „skipta um vettvang" eins og Valdís orðar það, og sækjast eftir völdum og frama, hafi verið slík að þeir hafi látið bera á sig tugi milljóna í styrki.

Málið snýst ekki um að Steinunn sé glæpamaður og þjófur. Ég efast stórlega um að hún sé það, eða að styrkirnir allir hugsaðir sem mútur, þó þeir líti þannig út í augum margra kjósenda. En um það snýst málið bara alls ekki. Málið snýst um að stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð og sýna iðrun og snúa við blaðinu. Og það hefur Steinunn ekki gert, því það er ekki hægt að lesa bréf hennar frá um daginn öðru vísi en sem svo að hún upplifi sig sem saklaust fórnarlamb ofsókna, og að ef hún þurfi að axla ábyrgð á einhverju eigi barasta allir aðrir þingmenn flokksins að axla sömu ábyrgð".

Eftirfarandi klausa er af vef Samfylkingarinnar þar sem tilkynnt er um umbótanefndina: 

„Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 17. apríl 2010 var samþykkt skipan umbótarnefndar sem hefur það verkefni að leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins og gera að því loknu tillögur til umbóta. ... Stefnt skal að því að kynning helstu niðurstaðna og tillagna fyrir stjórn flokksins og flokksstjórnarfundi verði eigi síðar en 15. október 2010."

Að lokum langar mig að velta því upp hvort það sé ætlun Steinunnar Valdísar að draga málið á langinn þangað til haust, og ef svo er hvort slíkt þyki boðlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband