Samskipti Steinunnar og Þórs

Eins og kunnugt er hefur þingmannanefndin sem ætlað er að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu RNA nú tekið til starfa.  Þingmannanefndin starfar á grundvelli tiltekinna laga sem sett voru um starfsgrundvöll hennar.

Hér má sjá feril málsins á Alþingi.

Lagafrumvarpið var til meðferðar hjá Allsherjarnefnd hverrar formaður heitir Steinunn Valdís Óskarsdóttir.  Þór Saari er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og lýsti Hreyfingin á öllum stigum málsins miklum efasemdum um ágæti þess.  Í viðleitni sinni til að bæta málið óskaði Þór m.a. eftir því við formann nefndarinnar að tilteknir aðilar yrðu kallaðir fyrir nefndina til að veita umsögn um það, en slíkur er algengur háttur þegar kemur að störfum nefnda þingsins. 

Beiðninni var hafnað, á þeirri forsendu að ,,formlega séð væri fulltrúi Hreyfingarinnar áheyrnarfulltrúi í nefndinni og því þyrfti formaður samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt)".  Um þetta má lesa í yfirlýsingu sem Hreyfingin sendi frá sér málsins vegna.

Hér á eftir fer annars vegar bréf sem Þór ritaði Steinunni sem lá fyrir fundi allsherjarnefndar þann 10. desember 2009 og ræða Steinunnar í þinginu þann 29. desember 2009.

Bréf Þórs

,,Sæl Steinunn.

Meðfylgjandi er rökstuðningur fyrir þeim gestum sem óskað var að kæmu fyrir nefndina vegna máls 286 um þingmannanefnd vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (Blaðamannafélag Íslands).
Fulltrúi "fjórða valdsins" , þ.e. blaða/fréttamanna hverra álit ég tel mikilvægt vegna þess aðhalds sem þeir eiga að veita stjórnvöldum í lýðræðisríkjum.

Ragnar Aðalsteinsson hrl.
Sennilega sá lögmaður íslenskur sem hvað mest hefur tjáð sig um lýðræði og mannréttindi sem og að hafa mjög virtar skoðanir um stjórnskipan og stjórnarskra Íslands. 

Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands
Sá fræðimaður innan Háskólans sem hvað fyrst varaði við hruninu og hefur skrifað fjölmargar greinar um ástæður þess.

Hörður Torfason, söngvaskáld (Raddir fólksins).
Einhver staðfastasti mannréttindafrömuður Íslands og sá er stóð fyrir og skipulagði "Raddir fólksins", útifundi á Austurvelli s.l. vetur er voru vettvangur tugþúsunda íslendinga sem voru að óska eftir nýjum vinnubrögðum og aðferðum við stjórn landsins.

Egill Helgason, blaðamaður.
Sennilega einn mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans og er e.t.v. meira með "púlsinn" á þjóðinni en nokkur annar.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.
Einhver virtasti og best menntaði stjórnsýlsufræðingur landsins og með mikla reynslu úr stjórnkerfinu hér á landi sem og erlendis og býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslum nágrannalanda og þeim aðferðum sem þar er beitt.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. sendiherra og ráðherra.
Með afburða þekkingu og reynslu af innlendum og alþjóðastjórnmálum.

Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og rithöfundur (Þjóðarhreyfingin).
Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar sem er hópur fólks sem hefur fundað reglulega undanfarin a.m.k. átta ár um lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur.  Þjóðarhryefingin samanstendur af mörgum mjög reynslumiklumog hæfum einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu.

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri (Borgarafundir)
Forsprakki "Borgarafunda", þeirra funda sem spruttu upp s.l. vetur og voru vettvangur þúsunda sem komu til að hlýða á og eiga samræður við stjórnmálamenn og/eða aðra sem tengdust málefnum þeim er mest brunnu á fólki í kjölfar hrnsins í október s.l. 

Eva Joly,
hana þarf varla að kynna en ég hef pata af því að hún sé á landinu eða við það að koma.  Ef svo er ekki þá væri gott að fá aðstoðarmann hennar Jón Þórisson í hennar stað.

Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly.

Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.
Sérþekking Róberts á íslenskri stjórnskipan og stjórnsýslu gerir álit hans mjög mikilvægt.

Með bestu kveðju,

Þór Saari
þingmaður Hreyfingarinnar"

Ræða Steinunnar:

,,Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari veit mætavel að sú sem hér stendur hafnaði ekki beiðni hans fyrst og fremst vegna formsatriða. Ég gat þess hins vegar að í samþykktum um áheyrnarfulltrúa fastanefnda er ekki gert ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar geti kallað gesti fyrir fundi. Það var hins vegar ekki meginástæðan fyrir því að ég hafnaði þeim lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fram.

Eins og hv. þingmaður veit mætavel, sagði ég við hann á þessum tiltekna fundi að ég sæi ekki sérstaka ástæðu til þess að kalla tiltekna blaðamenn, álitsgjafa, fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga eða ræðumenn hér úti á Austurvelli í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar fyrir nefndina, þennan 14 manna lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig, frekar en að kalla einhverja aðra tiltekna einstaklinga inn á fund. Það var ástæðan fyrir því að ég féllst ekki á að kalla þessa einstaklinga þarna inn en ekki þau formsatriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann fari rétt með staðreyndir hér úr ræðustóli Alþingis."


mbl.is Segir ásakanir á hendur sér rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband