Trúverðugleiki og pólitísk ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur

Á blaðsíðu 18 í Fréttablaðinu í dag, þann 17. Apríl 2010, eru birt svör formanna flokkanna við spurningum blaðsisins í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Ein af þeim spurningum sem um ræðir hljóðar svo: „Aðhafðist þú eitthvað eða sýndirðu af þér aðgerðaleysi sem biðjast ber afsökunar á?"

Svar formanns Samfylkingarinnar hefst með eftirfarandi orðum:  „Ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar gefur tilefni til að ætla að svo sé, enda var ábyrgðasvið mitt í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á svið félags- og tryggingamála og málefni bankanna komu nánast aldrei til umræðu á ríkisstjórnarfundum fyrir hrun."

21. kafli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber titilinn „Orsakir falls íslensku bankanna - ábyrgð mistök og vanræksla".  Í kafla 21.4.2. er fjallað um ríkisstjórnina.  Í kaflanum kemur meðal annars fram (feitletranir eru mínar):

„Fyrir liggur að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi.

Frá því í byrjun árs 2008 höfðu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna fengið upplýsingar um vanda fjármálafyrirtækja landsins á fundum með bankastjórn Seðlabanka Íslands. Þá fengu þeir ráðherrar sem áttu fulltrúa í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað upplýsingar um að hvaða verkefnum samráðshópurinn vann á hverjum tíma en áhyggjur af stöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna og umræður um nauðsyn viðbúnaðaráætlunar vegna fjármálaáfalls fóru vaxandi á þeim vettvangi.

Til skýringar á því að málefni bankanna hafi ekki verið tekin upp í ríkisstjórn hefur rannsóknarnefndin m.a. fengið þær athugasemdir frá Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í bréfi, dags. 24. febrúar 2010, að þau hafi verið viðkvæm trúnaðarmál. Hefðu upplýsingar um þau borist út af fundum ríkisstjórnar, eða jafnvel aðeins frést að þau væru rædd þar sérstaklega, hefði það getað valdið tjóni. Málefni bankanna hafi því ekki verið tekin á formlega dagskrá ríkisstjórnarfunda en verið reifuð undir liðnum „önnur mál" eða utan dagskrár þegar við átti eða einhver ráðherra óskaði þess. Samkvæmt gamalgróinni venju hafi slíkar umræður ekki verið færðar til bókar. Af þessu tilefni tekur rannsóknarnefnd fram að hvað sem leið störfum ríkisstjórnarinnar fram á sumar 2008 virðist þessi venja ekki hafa staðið í vegi fyrir því að bókað væri í fundargerð ríkisstjórnar 12. ágúst 2008 að viðskiptaráðherra hefði lagt fram minnisblað, dags. sama dag, um skipan nefndar um fjármálastöðugleika og lagt til að ríkisstjórnin féllist á þær tillögur sem þar voru settar fram. Tillaga viðskiptaráðherra fékk engar undirtektir í ríkisstjórn og var málinu frestað.

Rannsóknarnefndin tekur fram að almennt er ekki um það deilt að neikvæðar fregnir eða orðrómur sem kvisast út um afstöðu eða fyrirhugaðar aðgerðir opinberra aðila á vettvangi fjármálamarkaðar geti orðið til þess að hreyfa við aðilum á markaðnum og jafnvel auka á þann vanda sem við er að etja. Það hlýtur þó að heyra til skyldna ráðherra sjálfra, og þá einkum forsætisráðherra, að búa svo um hnútana í skipulagi og starfi ríkisstjórnar að hægt sé að ræða þar í trúnaði um viðkvæm mál sem varða mikilsverða og knýjandi almannahagsmuni. Hvað sem öðru líður hlýtur sú aðstaða að veikja starf stjórnvalda verulega ef vantraust veldur því að slík málefni komi yfirhöfuð ekki með neinum raunhæfum hætti fram á vettvangi ríkisstjórnar.

Rétt er að benda á ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi. Samkvæmt þeim er skylt að ræða nýmæli í lögum og „mikilvæg stjórnarmálefni" á ráðherrafundum, eða ríkisstjórnarfundum eins og þeir kallast að jafnaði. Enda þótt hver ráðherra fari sjálfstætt með málefni sem undir hann heyra samkvæmt málefnaskiptingu innan stjórnarráðsins verður í samræmi við stjórnarskrána að gera ráð fyrir að „mikilvæg stjórnarmálefni" séu tekin til umræðu í ríkisstjórn þannig að aðrir ráðherrar hafi tækifæri til að bregðast við og hafa áhrif á stefnumörkun ríkisstjórnar og síns ráðuneytis. Hér þarf líka að hafa í huga að það getur skipt máli hvað skráð er um mál í fundargerð og gögn ríkisstjórnarinnar ef síðar reynir á hvort gerðar hafi verið viðhlítandi ráðstafanir af hálfu ráðherra í tengslum við tiltekna stjórnarframkvæmd og hverjir úr hópi ráðherra hafi átt þar hlut að máli.

...

Rannsóknarnefnd Alþingis telur mikilvægt að mál sem koma til umræðu og ráðið er til lykta í innra starfi ríkisstjórnarinnar komi fram með skýrum hætti í formlegum fundargerðum hennar, enda er þar um að ræða einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd þjóðarinnar.

Forsætisráðherra átti allmarga fundi árið 2008 með formanni bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórum bankanna. Bankastjórn Seðlabankans átti einnig á tímabilinu febrúar til maí 2008 a.m.k. fimm fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Félagsmálaráðherra sótti einn þessara funda þegar rætt var um málefni Íbúðalánasjóðs. Af skýrslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, verður ráðið að hann hafi ekki verið boðaður á neinn þessara funda. Þar var þó m.a. rætt um vanda bankanna og lausafjárkreppuna en málefni bankakerfisins heyrðu undir ráðuneyti hans. Að auki virðist viðskiptaráðherra hvorki hafa verið gerð grein fyrir því að fundirnir fóru fram né upplýstur um það sem þar fór fram, þó með þeirri undantekningu að upplýst er að á þingflokksfundi Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008 gerði formaður Samfylkingarinnar Björgvin og fleirum grein fyrir fundi sem hún átti ásamt forsætis- og fjármálaráðherra með bankastjórn Seðlabankans 7. febrúar 2008.

...

Að mati rannsóknarnefndar Alþingis voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum ómarkvissar þegar harðna tók á dalnum í ársbyrjun 2008. Ráðherrar einblíndu of mikið á ímyndarvanda fjármálafyrirtækja í stað þess að takast á við þann augljósa vanda að íslenska fjármálakerfið var allt of stórt miðað við íslenska hagkerfið. Þegar ráðherrar hugðust bæta ímynd landsins með þátttöku í opinberri umræðu, einkum erlendis, var það gert án þess að lagt væri mat á fjárhagslegan styrk ríkisins til þess að koma bönkunum til aðstoðar og án þess að fyrir lægju upplýsingar um kostnað við hugsanlegt fjármálaáfall. Í þessu sambandi má nefna að Björgvin G. Sigurðsson viðurkenndi við skýrslutöku að yfirlýsingar um að ríkið myndi styðja við bakið á bönkunum hefðu verið byggðar á pólitískri afstöðu en ekki mati á raunverulegri getu ríkisins í þeim efnum. Á sama tíma lagði Seðlabanki Íslands áherslu á að gera gjaldeyrisskiptasamninga og auka gjaldeyrisforðann til þess að auka trúverðugleika bankans til þess að takast á við fjármálaáfall.

Þótt hér sé á engan hátt gert lítið úr ímyndarmálum og aðgerðum til að auka trúverðugleika vekur það hins vegar athygli að stjórnvöld skyldu ekki samhliða grípa til annarra aðgerða. Þannig verður ekki séð að gerð hafi verið vönduð úttekt á því hvort þörf væri á því að einn eða fleiri af stóru bönkunum flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Þvert á móti var það beinlínis opinber stefna þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var í maí 2007 að bankarnir hefðu áfram höfuðstöðvar á Íslandi, sbr. umfjöllun í kafla 5.0.

...

Getuleysi ríkisstjórnar og stjórnvalda til að draga úr stærð fjármálakerfisins í tæka tíð áður en til fjármálaáfalls kom sker í augu þegar sú saga er virt sem rakin er í köflum 19.0 og 20.0. Í því sambandi er rétt að minnast þess að þegar banki veitir fyrirtæki lágt lán er hann í stakk búinn til að setja fyrirtækinu skilyrði verði um vanskil að ræða. Ef banki veitir aftur á móti fyrirtæki svo hátt lán að bankinn sjái fram á veruleg skakkaföll lendi lánið í vanskilum er það í reynd fyrirtækið sem komið er með slík tök á bankanum að haft getur óeðlileg áhrif á framgang viðskipta þess við bankann. Á sama hátt liggur fyrir að þegar stærð fjármálakerfis lands nemur þrefaldri þjóðarframleiðslu þess hafa lögbær yfirvöld landsins almennt burði til þess að setja fjármálakerfinu leikreglur og hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt. Þegar stærð fjármálakerfis lands nemur aftur á móti nífaldri þjóðarframleiðslu þess verður viðsnúningur á þessu og virðist þannig bæði Alþingi og ríkisstjórn hafa skort burði og þor til þess að setja fjármálakerfinu skynsamleg mörk. Öll orka virðist hafa farið í að halda fjármálakerfinu gangandi því það var orðið svo stórt að ekki var hægt að taka áhættuna af því að jafnvel aðeins hluti þess félli."

Í 2. kafla skýrslunnar segir í ágripi um megin niðurstöður hennar:  „Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra áttu fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar 2008. Á fundinum dró formaður bankastjórnar Seðlabankans upp mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna. Upplýsingarnar bentu til yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf."

Eftirfarandi texti er úr fundargerðum þingflokks Samfylkingarinnar sagt var frá hér að ofan.  Umrædd gögn eru hluti af þeim gögnum sem Björgvin G. Sigurðsson lét rannsóknarnefndinni í té, nánar tiltekið fylgiskjal 10.

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008:
„ISG:      Ríkisstjórn mun koma með útspil vegna stöðunnar í efnahagsmálum í vikunni.  Staðan á fjármálamörkuðum er alvarleg vegna ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum og skuldsetningar íslensku bankanna.  Við þurfum  að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann.  Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu 9 mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá.  Því þarf að svara. 

Moody‘s mat stöðu ríkisins neikvæða og lausnir á því gætu verið aukið aðhald og að Íbúðalánasjóður starfi í samræmi við stefnu Seðlabankans.  Nýtt mat er væntanlegt þar sem lánshæfismat ríkis og banka lækka enn frekar.  Samtök fjármálafyrirtækja hafa sent ISG og GHH tillögur - eins konar bænaskjal.

Jón Þór Sturluson aðstoðamaður viðskptaráðherra og Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri voru settir í að skoða lausnir og hugmyndir þeirra eru t.d.:
- draga til baka reglugerð fjármálaráðherra um gjaldeyri og Seðlabanka - gæti verið sterkur leikur
- fjármögnun og skráning hlutafjár í erlendri mynd auðvelduð
- styrkja Tryggingasjóð innistæðueigenda
- auka gjaldeyrisforða með lántöku (ekki hagstætt núna - gert síðar er aðstæður batna)
- ríkið fari með bönkum í kynningu erlendis á íslenskri fjármálastarfsemi"

11 feb 08

Úr fundargerð þingflokks Samfylkingarinnar 18. febrúar 2008:
„ISG:      Stöðuna á fjármálamörkuðum þarf að taka alvarlega og menn þurfa að passa sig á að tala ekki óvarlega því slíkt tal getur verið skaðlegt berist það út.  Aðilar á markaði vilja helst ekki að talað sé hátt um þessi mál.  Það þarf að styrkja gjaldeyrisforða og lausafjárstöðu en hagstæðara að gera það án þess að mikið beri á.  Það er líka mikilvægt að kynna styrkleikana, sterka stöðu ríkissjóðs og góða eiginfjárstöðu bankanna án þess þó að gera of mikið úr því."

18 feb 08

Í 19. kafla skýrslunnar segir:  „Í skýrslu Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, kom fram að oftast hefði „súperráðherrahópurinn" komið fyrst að umfjöllun um stærri mál, s.s. ríkisfjármál og kjarasamningsráðstafanir og annað slíkt, og mótað stefnuna áður en aðrir ráðherrar hefðu komið að máli. Í þessum hópi hefðu verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra."

Einnig segir í 19. kafla: „Hinn 8. ágúst 2008 héldu fjórir ráðherrar lokaðan fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Gauta B. Eggertssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Jóni Þór Sturlusyni. Fundinn sóttu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var ekki meðal fundarmanna. Um ástæður þessa upplýsti Jón Þór Sturluson við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þetta hefði verið „súperráðherrahópurinn". Hagfræðingarnir Friðrik, Gauti og Már hefðu á fundinum haldið framsögu um lausafjárvandann."

Í kvöldfréttum RÚV var svo sýnt frá ræðu Jóhönnu á fundi Samfylkingarinnar í dag.  Sagði hún meðal annars:  „Við vorum hluti af ríkisstjórn sem hefði samkvæmt skýrslunni getað minnkað skaðann með markvissari viðbrögðum, þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar."

Hvar liggur ábyrgð Jóhönnu?

vanhaef_rikisstjorn


mbl.is Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

uppræta hreiðrinn / ekki bara skipta um óværu / hvar eru óværu uppeldisstöðvar glæpa klíku spillingar á Islandi ? hver eru HREIÐRINN ? en auðvita má ræða þetta mjög málefnalega / hvað sega þau , verðum að læra af mistökunum læra af söguni/mistokum ? hafa þessi hámenntuðu kvekindi aldrei litið í bók og aldrei lesið neitt um söguna ? UPPRÆTA aumingja óværu glæpa klíku spillingar sóða langættardólga arðráns HREIÐRIN flokkseigandafélögin / þínglýsa kosningaloforðum/stefnuskrá   reglur aðhald viðurlög á manneskjurnar gráðugar breiskar

Ásgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 21:30

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Á ekki að draga ALLA þá sem sváfu á verðinum í bankahruninu til ábyrgðar????  Hún hefur nú gengið einna harðast fram í "EKKI BENDA Á MIG"-leiknum.  Hvenær kemur að henni?

Jóhann Elíasson, 18.4.2010 kl. 06:03

3 identicon

Flott samantekt hjá þér. Takk fyrir það.

 Ef að "Hrunastjórnin " Hefði verið að vinna fyrir þjóðina, en ekki útrásarpakkið, þá hefði Geir og ríkisstjórn hans t.d. farið á fyrsta degi og fengið hjálp hjá Serius fraud office í Bretlandi og Hollandi og að sjálfsögðu vinum sínum í ESB. Til að taka á þessum málum, og ná utan um glæponana og peningana. Því hér var engin kunnátta til að taka á efnahagsbrotum. Nú vitum við meira, af hverju það var ekki gert. Og kannski komin orsök "Hryðjuverkalaganna" ( Þeir eiga jú t.d. leyniþjónustu sem matar þá á upplýsingum um hagi erlendra ráðamanna)

Enn fremur.  Færir þú þarna sönnur fyrir mér á, af hverju Jóanna hélt áfram á sömu braut og gerir enn. Sem sagt að draga Lappirnar í öllu rannsóknarferlinu. ( þvílík mistök hjá Forseta vorum að gefa henni stjórnarmyndunar vald, eftir hennar setu í fyrri stjórn)

Það var ekki á forgangslista Jóhönnu og Ríkisstjórnar hennar að knésetja Útrásarglæpona, og er ekki enn. því ekki er búið að aflétta bankaleynd á þá enn, eða kyrrsetja einn einasta þeirra, eða fyrirtæki þeirra og fjármuni. (sem viðmiðun, það tók aðeins nokkra klukkutíma hjá þessari Ríkisstjórn að setja lög á kjaradeilu verkafólks í vinnudeilu við einkafyrirtæki)

Ári eftir að Jóhanna tók við, komu þeir sjálfir frá Serius fraud office og buðu aðstoð sína ásamt Norsku Efnahagsbrota deildinni. Engum virðist hafa dottið það í hug innan ráðuneytanna, að fá hjálp. Og núna fyrst eftir útkomu skýrslunnar, og endurnýjuð ummæli Evu Joly um hvaða mannafla og fjárþörf er saksókninni nauðsynleg. Er Ríkisstjórnin að viðra hugmyndir að efla Sérstakan saksóknara.

Það getur vel verið að það þurfi þjóf til að ná í þjóf. 

En það verður að vera annar þjófur en sá sem elts er við.

Auk þess þá er það augljóst á verklagi stjórnvalda, að þau hafa engan hug á því að efna hér til þeirra lýðræðisumbóta sem fólkið vill. 

Hér á í lengstu lög að hrauna yfir lýðræðið í hyllingu flokksræðisins sem er aðal orsök hrunsins.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 13:05

4 identicon

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar meðal annars í dag:

"Stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar með Sjálfstæðisflokknum á árunum 2007-2009 sé smánarblettur í sögu Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnin hafi verið hörmuleg og að pólitískir oddvitar flokkanna beri höfuð ábyrgð því hvernig fór.
„Ræða Ingibjargar Sólrúnar var einlæg játning á því að henni hefði orðið alvarlega á, eins og hún orðaði það sjálf. Brugðist sjálfri sér, kjósendum og þjóðinni. Það var mjög einlæg afsökunarbeiðni og upphafið af því að Samfylkingin axli pólitíska ábyrgð."

 Jóhanna og össur voru jú  Oddvitar Samspillingar líka, sér í lagi í fjarveru ISG. Og sátu með henni og fyrir hana.

Við látum ekki blekkjast með því að hægt sé að fórna einstaka fólki eins og ISG, fyrir áframhaldandi setu flokksins, með "Hrunastjórnar Ráðherra" Sem Forsætisráðherra og Utanríkisráðherra nú.

Burt með spillingarpakk allra flokka.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 14:46

5 identicon

Það kemur fram í þessari samantekt og rannsóknarskýrslunni að Jóhanna Sigurðardóttir var ekki upplýst um stöðu mála heldur einungis Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir Haarde og Árni Sigfússon. Þegar Ingibjörg forfallast leitar hún til Össurar Skarphéðinssonar til að taka við keflinu en ekki Jóhönnu Sigurðardóttur eða varaformanns flokksins.   Það að reyna að blanda Jóhönnu í þessi bankamál er einfaldlega rangt, þe það er allt í lagi að reyna það ef mann langa en niðurstaðan er að hún hafði ekkert með þessi mál að gera. Sjálfstæðismenn vildu einkavæða íbúðalánasjóð og hún var kölluð inn á einhvern fund þess vegna til að útskýra og vék af fundi þegar því var lokið. .. Hún var félagsmálaráðherra og stóð sig vel þar, sjálfstæðismenn voru með efnagagsstjórnina og það vita allir sem vilja vita. 

Ljóst er þó að nákvæmlega sama hvað allt þetta ágæta fólk hefði gert þá hefðu þau ekki getað komið í veg fyrir bankahrunið. Það sem úrskeiðis fór var fyrir árið 2006 eins og formaður sjálfstæðisflokks þreytist ekki á að útskýra, ásamt fleirum.  Nornaveiðarnar ættu því að einblína frekar á þann tíma og hver braut af sér þá frekar að mínu mati.

Heiða Björg (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 16:15

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir þessi vönduðu skrif Þórður!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.4.2010 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband